144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér skilst að ég sé númer 26 í röðinni af þeim þingmönnum sem vilja tjá sig um fundarstjórn forseta, sem er bara fáheyrt. Ég er á mælendaskrá og mig langar gjarnan til að ræða rammann. Mér skilst að það geti orðið kannski eftir tvo, þrjá daga ef heldur áfram sem horfir, einhvern tímann um miðja næstu viku. Þetta er náttúrlega algjörlega galið.

Kallað var eftir því hvar ég hefði verið, en ég verð þó að áskilja mér sama rétt og hv. þm. Björt Ólafsdóttir ætlar að gera hérna á eftir, hún ætlar að fylgjast með umræðum í sjónvarpi og kíkja á skjöl og annað. Ég gat ekki skilið hana betur en hún ætlaði að gera það. Ég geri ráð fyrir að þeir stjórnarandstöðuþingmenn sem eru ekki hér séu eins og við hin að fylgjast með umræðum og vinna vinnuna sína. Ég bið því stjórnarandstöðuna eða þá sem eru hér að sýna okkur þá virðingu að reikna með því að við séum (Forseti hringir.) að vinna þó að við sitjum ekki hér og hlustum á fundarstjórn forseta. Þetta er fáheyrt.