144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. 3. þm. Norðaust. gæti dottið meira eða minna hvað sem er í hug til að segja hér í pontu nema hugsanlega: Kannski ætti meiri hlutinn að hlusta af og til á stanslausa gagnrýni á dagskrána hér.

Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra sagt opinberlega á Facebook-inni góðu, fésbókinni eða hvað maður á að segja, virðulegi forseti, að hér þurfi að setja tímaramma utan um umræður og gefa virðulegum forseta meiri völd yfir þingstarfinu. Nú veit ég ekki hvaða völd forseti gæti átt við vegna þess að minn skilningur er sá að virðulegur forseti hefur alvald yfir dagskránni, það er jú undan því sem við erum að kvarta hérna. Lausnin á því er ekki meira vald hvernig svo sem því væri hægt að koma fyrir, heldur valddreifing til þingsins, til þjóðar, með öllum hugsanlegum lýðræðislegum ráðum frekar en að fara sífellt út í það þegar umræðan hérna þóknast ekki meiri hlutanum að takmarka umræðuna frekar en taka þátt í henni, sem ég reyndar fagna (Forseti hringir.) að hv. 3. þm. Norðaust. hyggist gera. Lausnin er alla vega ekki sú að gefa alvaldinu (Forseti hringir.) meira vald.