144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hvernig stendur á því að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra er ekki hérna? Af hverju er ráðherrann ekki við umræðuna? Það er búið að margbiðja hana um að vera við þessa umræðu. Af hverju er hún ekki hérna? Hefur henni verið gert viðvart um að hennar sé óskað hér? Það var þráfaldlega gert í gær með mjög takmörkuðum árangri. Hún kemur með tilkynningu inn í umræðuna í dag og fer svo.

Hæstv. forsætisráðherra kemur líka inn í umræðu um óundirbúnar fyrirspurnir og fer svo, talar að vísu um leið og hann er að fara út úr salnum um mikilvægi rökræðunnar eins og venjulega, mikilvægi rökræðunnar, segir hann og gengur svo á dyr. [Hlátur í þingsal.] Hvar er hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra? Þessari umræðu verður ekki haldið áfram öðruvísi en að ráðherrann komi í þingsal.