144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þá kröfu að fundi verði ekki haldið áfram án þess að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sé mættur í salinn. Það er nú svo að staða þingsins í málinu er orðin svolítið sérkennileg. Eins og hæstv. forsætisráðherra lýsti svo ágætlega hér í morgun, þá var það hæstv. ríkisstjórn sem var að semja einn kost út af borðinu af breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar. Það var ríkisstjórnin sem var að semja kostinn út af borðinu og tilkynna þinginu það.

Ég vil spyrja forseta hvort honum finnist þetta ekki svolítið öfugsnúið því að þingið er auðvitað með málið í sínum höndum og ætti frekar að segja sína niðurstöðu og láta hæstv. ríkisstjórn vita um hana en ekki öfugt.