144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram með umsögn ASÍ af því að ég óskaði eftir því að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson færi yfir það hvaða umsögn hann væri að vísa í. Þetta er einmitt það sem hæstv. umhverfisráðherra svaraði ekki, þegar hún var spurð þegar hún flutti ræðu sína, þ.e. hvað við gerum við nýjar upplýsingar. Hvernig vinnum við með nýjar upplýsingar? Umsögn ASÍ um þá tilteknu breytingartillögu sem hér liggur fyrir styður ekki þetta mál þannig að menn eru nánast hér að segja ósatt þegar þeir vitna til gamalla upplýsinga sem ASÍ styður ekki lengur, það eru aðrar forsendur sem ASÍ telur sig hafa í dag en þá.

Þá á maður að segja frá því, hv. þingmenn Páll Jóhann Pálsson og Jón Gunnarsson. Að mati ASÍ er nauðsynlegt að hver virkjunarkostur fái þá umfjöllun hjá verkefnisstjórn byggða á faglegum rannsóknarniðurstöðum sem vera ber áður en lagt er til að færa einstakan virkjunarkost úr einum flokki yfir í annan. Svo mörg voru þau orð. Þetta er málið og þarna stendur umsögn ASÍ en ekki eins og hv. þingmenn hafa vitnað til.