144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Nú er það orðið svo að forsætisráðherra kemur í ræðustól og gefur út yfirlýsingar og segir eitt og annað um ASÍ. Svo kemur í ljós að það er ekki satt þegar menn fara að glugga í pappíra. Hér kemur þingmaður Framsóknarflokksins í hv. atvinnuveganefnd, Páll Jóhann Pálsson, sem ekki hefur nú hjálpað til við að koma þessari umræðu áfram, og les og veifar hér tveggja og hálfs árs gömlum skjölum.

Ég spyr: Hvað liggur á? Hér lá fyrir frumvarp um eina virkjun sem verkefnisstjórn mælti með. Hvað liggur á að taka núna þrjár, áttu að vera fjórar, til viðbótar? Er ekki nóg rafmagn í landinu? Það er alveg hellingur af rafmagni í landinu.