144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ein af algengustu spurningum sem ég er spurður af fjölmiðlum er hvað hafi komið mér mest á óvart við að setjast á þing. Ég svara þeim alltaf á þá leið að ég hafi ekki haft neina sérstaka fyrir fram mótaða skoðun á því hvernig það væri að vera hér, en eftir tvö ár verð ég að segja að það sem kemur mér hvað helst á óvart er hversu grímulaus vitleysan getur orðið hérna, hversu óskammfeilin hún getur orðið.

Að því sögðu finnst mér alveg þess virði að íhuga orð hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar þegar hann talar um að meiri hlutinn ráði. Nú eru komin tvö ár inn í fjögurra ára kjörtímabil og kosningabaráttan var á þeim forsendum sem hún var háð, skuldaniðurfellingar og því um líkt sem við ættum kannski frekar að vera að ræða núna. Á sama tíma hefur stuðningur við ríkisstjórnina dvínað mjög mikið. Það finnst mér segja okkur að það þurfi aðrar leiðir til að útkljá ágreining en það hefðbundna kerfi sem við búum við, hvort sem það er á Alþingi, kosningum eða hvað. Það þarf frekari úrræði til að lýðræðisvæða þetta ferli. Það gengur ekki að við séum alltaf föst hér í þinglok vegna þess að við höfum ekki rænu á því að byggja upp betra kerfi.(Forseti hringir.)

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.