144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:15]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mikið vildi ég að þessu færi að ljúka. Þetta er ekki mjög skemmtilegt en kannski nauðsynlegt. Menn hafa komið hingað upp og talað um álit ASÍ frá 2002 og svo álitið núna og verkefnisstjórn og annað en mér finnst allt of lítið talað um að það býr fólk á bökkum Þjórsár. Við fengum bréf, sem ég hef bent á hér áður í ræðustóli, frá 38 bændum sem búa á bökkum Þjórsár og vilja bara fá að lifa þar í friði á jörðum sínum og yrkja landið, en hafa undanfarin 10–15 ár búið við óvissu um hvað þeir eigi að gera. Það hefur truflað allar rekstraráætlanir og allt hjá þessu fólki. Það finnst mér ámælisvert. Þetta fólk býr þarna, þetta er heimili þess og við ætlum bara að æða yfir það á skítugum skónum og virkja. Til hvers? Hvert á að fara með rafmagnið, hv. þingmenn? Hvert á að fara með það? Út úr kjördæminu, eins og alltaf? Á að fara að byggja upp einhverja atvinnu á þessu svæði með þessu rafmagni? Nei, það á að fara með það til Murmansk Skandinavíu (Forseti hringir.) eins og einn góður maður kallaði Hvalfjörðinn.