144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum árum var gefin út doktorsritgerð sem hét Þar sem fossarnir falla. Þar er farið yfir söguna í deilum um orkunýtingu íslenskra fallvatna. Það er löng saga og mikil átök hafa átt sér stað. Rammaáætlun sem unnin var síðastliðin 15–20 ár var leið til þess að búa til leikreglur um ákvarðanatöku um mögulegar virkjanir annars vegar og vernd hins vegar. Deilurnar hér þessa dagana eru áframhald af þeim deilum sem hafa átt sér stað í gegnum söguna í íslensku samfélagi.

Er þingmaðurinn sammála mér um að deilurnar séu svona harðar nú því að það sé í raun og veru verið að kippa úr (Forseti hringir.) sambandi því tæki sem búið var til til þess að reyna að koma skikki á hlutina?