144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir prýðisræðu. Við færumst nær sömu blaðsíðu þegar við ræðum þetta hér í efnislegri umræðu. Hv. þingmaður var býsna skýr í ræðu sinni og stendur að áliti 2. minni hluta atvinnuveganefndar með frávísunartillögu. Ég er sammála hv. þingmanni um gildi ramma og í áliti meiri hluta segir á bls. 3 að meiri hlutinn sé í grunninn sammála því ferli sem lögin byggist á. Ég held að við séum nú flest sammála um það.

Mig langar hins vegar að fara í orðsins fyllstu merkingu út fyrir rammann og spyrja hv. þingmann, af því að hún er búinn að taka á móti öllum þeim fjölmörgu gestum sem hafa tjáð sig um málið í vinnslu hv. nefndar: Hvaða kosti sér hún tæka í nýtingu?