144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er allt hið undarlegasta mál. Í fyrsta lagi kemur málið inn á þann hátt að ákveðið er að demba inn fjórum nýjum virkjunarkostum milli umræðna um þingsályktunartillögu um eina virkjun. Gott og vel. Síðan gerist það til viðbótar að í dag kemur hæstv. umhverfisráðherra og fær að koma inn í röð á mælendaskrá og tilkynnir okkur að nú eigi að gera breytingar á breytingartillögunni við upphaflegu tillöguna einhvern tíma undir þessari síðari umræðu, sem við vitum ekki hvenær er. Sú tillaga er ekki komin formlega fram en það er samt búið að segja okkur frá henni. Það er eins og menn geri sér ekki grein fyrir því að við erum í lokaumræðu um málið og næst á dagskrá er bara atkvæðagreiðsla. Hvað halda menn að þetta séu margar umferðir af umræðum? Menn tala eins og þeir geti verið að dóla sér við þetta, gera breytingar hingað og þangað fram eftir öllu máli.(Forseti hringir.) Það er ekki þannig. Það er þess vegna sem við gerum þá kröfu að þeir komi hingað og hlýði á mál okkar.