144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:11]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa því yfir að ég er virkilega miður mín. Við höfum lagt á okkur mikla vinnu við að fara í gegnum ferli rammaáætlunar, við að fara í gegnum þessar breytingartillögur, við að hlusta á fólk sem kemur til okkar og við að reifa þetta mál. Niðurstaðan er að koma fram. Við erum að sjá hér að málið er stórlega gallað og mér finnst afskaplega leiðinlegt svo ekki sé meira sagt að enginn sé hér til að tala við um það, að það skipti bara meiri hlutann engu máli. Erum við ekki hér til að láta umræðuna færa okkur eitthvað? Ég er ekki hér til að stjórnarmeirihlutinn komist heim til sín í grillið. Ef ekki er vilji til að hlusta á þetta hefði átt að stoppa fund kl. fimm. En þetta er bara kjánalegt.