144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum yfirgripsmikla ræðu sem kom í raun inn á marga þætti. Hún kom í fyrsta lagi aðeins inn á söguna og þá vildi ég kannski bæta við það. Hv. þingmaður segir að þetta sé ein merkasta löggjöf sem sett hefur verið og síðan fer hann yfir söguna, hvernig hún var sett.

Ég held að frá því að þessi lög voru sett og frá því að umræða byrjaði um hana — hv. þingmaður nefnir fyrrverandi þingmann, Hjörleif Guttormsson — þá hafi fólk einmitt í þessum málaflokki vaknað til meðvitundar um hugmyndir sínar. Ég held að viðhorf okkar margra og fólks almennt hafi breyst miklu meira í þessum málaflokki, í náttúruvernd og umhverfismálum, en í mörgum öðrum á undanförnum tveimur til þremur áratugum eða svo.

Síðan kom þingmaðurinn inn á, sem er fróðlegt líka, mótsögnina í því að búa til þessa verkferla en segja svo á endanum: En ég er ósammála Hvammsvirkjun. Það er alveg réttmætt vegna þess að á endanum hljótum við að vera í pólitík til að taka ákvarðanir. Þær geta alveg verið þannig að við séum á öndverðum meiði en upplýsingar eru forsendan fyrir því að geta tekið þá ákvörðun að segja: Ég er á móti Hvammsvirkjun. Þegar búið er að skoða upplýsingar um þætti í málinu getur hver þingmaður komið (Forseti hringir.) og sagt frá sínu huglæga mati: Þrátt fyrir allar þessar upplýsingar vil ég þetta ekki. Er þetta ekki svolítið í þessum dúr?