144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg hárrétt. Í fyrsta lagi er ég alveg sammála hv. þingmanni um að vitund okkar um mikilvægi náttúrunnar og náttúruspjalla er allt önnur og miklu meiri en hún var fyrir einhverjum árum, að ekki sé minnst á áratugi. Þessi vitund var að mjög takmörkuðu leyti til staðar. Það voru til frumkvöðlar í þessari hugsun — Eysteinn Jónsson, svo að dæmi sé nefnt um mann frá fyrri tíð, og Hjörleifur Guttormsson og margir aðrir — sem hafa kveikt upp í okkur vitneskjuna og áhugann á þessum málum.

Síðan er það hitt, þetta hlutlæga og huglæga, það er alveg rétt. Þegar ég segist vera á móti Hvammsvirkjun get ég verið að horfa til ýmissa annarra þátta en verkefnisstjórnin hefur gert og komist endanlega að niðurstöðu um. Og ég hygg að niðurstaða verkefnisstjórnar sé mjög líkleg til að vera í flútti við viðhorf mjög margra, ég hygg það. Ég vil hins vegar ganga nokkuð langt í náttúruvernd og hugsa mjög langt fram í tímann. Ég hef áhyggjur af því að við séum að ganga of hart fram á hendur náttúrunni. Þar vísa ég líka í þessa orkunýtingarþörf, að við spyrjum slíkra grundvallarspurninga, sem ég er ekkert alveg viss um að sé nægilega vel inni í þessari umræðu á sama hátt og vitund okkar fyrir náttúru og náttúruspjöllum var það ekki áður. Kannski höfum við ekki enn komist (Forseti hringir.) á þann stað á vegferð okkar að við séum farin að skoða þessi mál nægilega heildrænt. Ég held ekki.