144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:40]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir mjög góða ræðu. Hún súmmeraði upp það sem við erum kannski öll að hugsa og viljum. — Er bara ein mínúta? — Við viljum gera þetta í réttri röð og gera þetta faglega. Það er kannski það sem hrunið leiddi okkur fyrir sjónir að það vantaði hér fagleg vinnubrögð þar sem til allra kosta er litið.

Ég er ekkert endilega á móti virkjunum. Ég hef svona velt því fyrir mér á síðustu árum hvað við fáum fyrir þessar virkjanir, hvað stóriðjurnar gefa íslensku þjóðinni í beinan arð. Ég tel að það sé allt í lagi að skoða alla hluti út frá því sérstaklega hvað þessar virkjanir skila okkur í arð.

Hv. þingmaður minntist á að hann yrði á móti Hvammsvirkjun. Ég deili því með honum, ekki síst í ljósi ábúenda við Þjórsá þar sem aðalhlutverkið á þingi er að verja almannaheill. Við höfum fengið bréf, og ég hef margoft nefnt það hér í dag, frá 38 bændum sem búa á bökkum Þjórsár sem eru gjörsamlega mótfallnir þessum áformum. Þeir vilja fá að yrkja landið sitt og búa á þessum jörðum. Í DV í janúar 2014 var viðtal við ábúendur þar sem Hvammsvirkjun á að rísa. Landsvirkjun upplýsti fólkið ekkert um þetta. Það hefur ekki verið haft samband við einn einasta mann um að það eigi að gera þetta. Það er ekki talað við fólkið. Það er ekki samráð um neitt. Það á bara fara þarna og gera þetta.

Svo er líka annað sem kemur fram frá þessum bændum. Ef þessar virkjanir ganga eftir þá verða tæplega 60% allrar raforkuframleiðslu vatnsorkuvera á þessu svæði. Þetta er mjög virkt eldfjallasvæði. Það kom fram í vetur þegar ég heimsótti Almannavarnir. Ef Bárðarbunga mundi gjósa og allt kæmi niður vatnasvæðið í Þjórsá, hvað gerist þá, hvað verður þá?