144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þetta með arðinn og framtíðina. Við eigum náttúrlega að hugsa mjög langt fram í tímann. Við horfum núna til þess að ferðaþjónustan og arðurinn af henni er farinn að vega mjög þungt í þjóðarbúskap okkar. Það er náttúrlega alveg augljóst að ef við malbikum yfir allar náttúruperlurnar eða spillum þeim þá erum við jafnframt að spilla möguleikum okkar í þessum efnum. Ég er bara að setja þetta í samhengi við arð.

Ég man eftir því að ég hitti einhvern tíma blaðamenn sem voru nýkomnir úr fljótasiglingu í Skagafirði. Þeir höfðu farið, held ég, í báðar jökulárnar þar. Þetta voru blaðamenn sem sérhæfðu sig í ferðamennsku. Þegar þeim var sagt að það væru áform uppi um að virkja þessar ár þá spurðu þeir hvort menn væru orðnir galnir eða hvort við gerðum okkur ekki grein fyrir því hvaða perlur við ættum í okkar fórum.

Þess vegna segi ég að núna þurfum við að draga andann rólega. Okkur liggur ekkert á. Við ætlum að vera hérna næstu þúsund árin. Það liggur ekkert á. Þetta er ekkert að hlaupa frá okkur. Við verðum að íhuga rækilega hvert við stefnum. Við eigum ekki að halda áfram fyrr en við erum búin að koma okkur niður á markmiðin. Hvað þurfum við að eyðileggja mikið? Hvað þurfum við að framleiða mikið? Orkunýting felur iðulega í sér einhverja eyðileggingu. Hvað ætlum við að virkja mikið? Hvað þurfum við að virkja mikið? Hvað viljum við virkja mikið og til hvers?