144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef einhver hefði sagt mér fyrir ekki svo mörgum árum hversu oft ég og hv. þingmaður yrðum sammála á þingi hefði ég sennilega ekki trúað því. En ég er hjartanlega sammála því sem hv. þingmaður var að segja og sérstaklega þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslum. Það sem gerist, og er ein af mörgum ástæðum fyrir því að ég er svona hrifinn af þeim persónulega, er einmitt að þegar fólk fær valdið í eigin hendur hefur það tilhneigingu til þess að skoða það. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekkert skoðað Urriðafoss sérstaklega fyrr en þetta mál kom upp og ég er á móti því að virkja í kjölfarið, eftir að hafa skoðað hann. Þannig er, eins og hv. þingmaður sagði, líka með hinar virkjanirnar. Það sem ég er að velta fyrir mér er að því gefnu að við viljum ekki fara í þjóðaratkvæðagreiðslur eða öllu heldur mundi maður vilja að slík ráð væru óþörf, vegna þess að við viljum væntanlega hafa einhvern sameiginlegan grunn.

Á síðasta kjörtímabili var hæstv. þáverandi ráðherra gagnrýndur fyrir að skrifa ekki undir og núna gagnrýnir minni hlutinn meiri hlutann fyrir að gera hlutina á þennan hátt. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvaða brotalamir á þessu ferli við gætum lagað þannig að við getum komið því aftur á rétta braut. Núna lítur þetta út eins og lestarslys hvað varðar pólitíska sátt, jafnvel hvað varðar aðferðina sem við ætlum að beita þegar við lítum fram á veg.