144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[13:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er orðin ástæða til að spyrja hvort ekki sé rétt að fresta þinghaldinu um tvær, þrjár vikur eða svo því að ríkisstjórnin virðist hvorki vita hvort hún er að koma eða fara né hvaða mál eigi yfir höfuð að leggja fram þótt allir frestir séu löngu útrunnir.

Eiga hér að koma inn hin ýmsu stóru mál sem ríkisstjórnin hefur nefnt? Hún veit það ekki sjálf. Fyrr en ríkisstjórnin veit sjálf hvort hún ætlar að leggja fram mál eða afgreiða einhver mál er náttúrlega ómögulegt að ljúka þinghaldinu. Það er orðin spurning hvort ekki sé rétt að fresta þinghaldinu og láta þingið bara koma aftur saman þegar ríkisstjórnin veit sitt rjúkandi ráð og hefur einhverja hugmynd um það hvert hún stefnir og hvaða mál hún hyggst ætla að fá afgreidd á þessu þingi. Ef ríkisstjórnin veit ekki hvaða mál hún vill fá afgreidd á þinginu, hvernig á þá að vera hægt að ljúka því?