144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[13:58]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég trúi því varla að við séum að hefja enn eina vikuna á hinu umdeilda máli um rammann þegar allt logar í deilum á vinnumarkaði. Kannski er líka að birtast okkur ástæðan fyrir þessu sem virðist vera sú að ríkisstjórnin er ekki með nein svör inn í kjaradeiluna, ekki nein. Menn koma sér ekki einu sinni saman um niðurstöðu um breytingar á húsnæðiskerfinu, það kemur síðan í ljós að ráðherrar eru ekki bara í deilum innbyrðis heldur leggja þeir fram ófullbúin frumvörp til kostnaðarmats.

Ég held að það þurfi að gera hlé á þingstörfunum og reyna að teikna upp einhverja mynd af því hvernig eigi að ljúka þessu þingi og með hvaða hætti við getum gert það sameiginlega svo sómi sé að. Við erum tilbúin til þess, virðulegi forseti, en það skiptir máli að við förum hér að ræða (Forseti hringir.) stóru málin sem eru deilur á vinnumarkaði.