144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[13:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka það fram að ég hef ekkert út á fundarstjórn hæstv. forseta að setja og tel hana með miklum myndarbrag.

Það er ýmislegt í þessari umræðu sem vekur furðu. Menn í stjórnarandstöðunni telja ýmist að ríkisstjórnin hafi engin mál lagt fram í vetur og því sé ekkert hér að gera allt upp í það að hér þurfi að fresta þingstörfum til að íhuga hvað eigi að fara að ræða. Ég tel þetta mikla fásinnu. Hér liggur fyrir dagskrá. Formaður Samfylkingarinnar lagði til í síðustu viku að nú væri kominn tími til að fara að mæla þingviljann í því máli sem er á dagskrá, vildi fara að telja hausa í stjórnarliðinu. Ég er sammála því, við skulum fara að koma þessu máli í atkvæðagreiðslu. Þannig teljum við hausana, ekki satt? Ég tel fullkomlega eðlilegt að við höldum störfum okkar hér áfram. Mér telst til að um það bil 30 þingmál bíði hér 2. umr. Það er nóg að gera hjá okkur þannig að við skulum einfaldlega halda áfram með dagskrána. Ég hvet okkur öll til þess að vinna vel saman í dag.