144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:04]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er einn af þeim sem áttu von á því að þetta mál yrði ekki á dagskrá hér í dag heldur færum við að vinna í öðrum málum. Það er gríðarlegt áhyggjuefni að heyra í fréttum síðast í morgun þegar við erum komin á fjórðu til sjöttu viku í verkfalli hjá BHM að samningafundi í gær hafi lokið þannig að menn segja að ríkisstjórnin ætli bara að bíða þangað til almenni markaðurinn verður búinn að semja. Látum vera ef vandamálið væri að ríkisstjórnin væri að bíða eða við sem hér stöndum, en það er verið að láta sjúklinga bíða. Þeir gjalda fyrir þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar og hún verður að bera ábyrgð á því.

Ég ætla líka að vekja athygli hæstv. forseta á því að í umræðunni fyrir helgi kom fram að hæstv. forsætisráðherra lætur að því liggja að þessi rammaáætlun sé hluti af kjarasamningum. Hann vitnar þá meðal annars í ASÍ. Síðan er það hrakið illilega í umræðunni vegna þess að ASÍ hefur sagt: Við viljum Hvammsvirkjun en að annað verði afgreitt af verkefnisstjórn. Samt segir hæstv. forsætisráðherra enn að þetta sé hluti af kjarasamningum. Eru menn hissa þó að við ræðum þetta mál (Forseti hringir.) og reynum að átta okkur á því hvort við erum að koma eða fara?