144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að dagskrárvaldið er í höndum forseta þingsins og það liggur fyrir að ábyrgðin er þar á því hvað verður hér rætt. Það liggur líka fyrir að hv. þm. Jón Gunnarsson er ekki með dagskrárvald hér í þinginu. Hann er með töluvert vald sem hann tekur sér og fer mikinn með það vald, en hann hefur ekki dagskrárvaldið hér í þinginu þannig að það sé sagt.

Nú stendur til að ræða húsnæðismál í hálftíma á morgun, hálftíma. Og það er að frumkvæði stjórnarandstöðunnar. Það stendur til að ræða fiskveiðistjórnarmál í hálftíma á fimmtudaginn. Það er líka að frumkvæði stjórnarandstöðunnar. Það er aðkoman sem við höfum að dagskrá þessarar viku. Sú aðkoma verður nýtt í þágu þeirra mála sem mikilvægt er að ræða. Á meðan forseti sér ekki mikilvægi þess að við ræðum þá alvarlegu stöðu sem er á vinnumarkaði, og að við séum hér með rammaáætlun sem tappa í allri eðlilegri umræðu, þá komumst við ekki neitt.