144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hvet hv. þm. Steingrím J. Sigfússon til að beita sér þá fyrir því að þetta mál komist á dagskrá, svo að ég geti hlýtt á ágæta ræðu hv. þingmanns, í (Gripið fram í.)stað þess að vera hér í eilífum athugasemdum um fundarstjórn forseta sem snúa alls ekkert að fundarstjórn forseta heldur að efnislegri umræðu um málið. Hvers vegna má ekki halda áfram umræðunni um málið? Hvers vegna fer varaformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, í efnislega umræðu undir fundarstjórn forseta? Er það ekki vegna þess að menn eru hér að reyna að drepa tímann? (VigH: Jú.) (JónG: Málþóf.) (VigH: Málþóf.) Ég held að það blasi við öllum þeim sem heima sitja og horfa á þetta. Mér er alveg slétt sama um athugasemdir hér utan úr þingsalnum, frá fólki sem þorir ekki að koma hér upp, um að við þekkjum þetta frá því að við vorum í stjórnarandstöðu. Það er alveg rétt. (Gripið fram í.) En þegar maður fer og kveður sér hljóðs um fundarstjórn forseta þá verður maður alla vega að hafa smáhugmyndaflug í það að ræða fundarstjórn forseta en ekki efni málsins sem er á dagskrá. Komið þá frekar í efnislega umræðu um málið.