144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. forseti nefndi áðan að starfsáætlunin mundi standa og ekkert væri breytt í þeim efnum, en samt erum við hér í þessari gíslingu hv. formanns atvinnuveganefndar Jóns Gunnarssonar og ekkert gerist. Það eiga stór mál eftir að koma inn. Ég nefni sem dæmi skiptingu á félagslega hluta aflamarkskerfisins, 5,3%, sem hæstv. sjávarútvegsráðherra á eftir að mæla fyrir. (Gripið fram í: Sjávarútvegsmálin líka?) Já, það er dagskrá, það mál á eftir að koma á dagskrá, það er bara þannig, svo það verður að vera gert ráð fyrir því í dagskránni. Það mál á eftir að fara út til umsagnar. Ég skil ekki að menn kunni ekki á dagatal hérna inni, það virðist vera einhvern veginn þannig að menn geti ekki reiknað sig áfram. Það er auðvitað makríllinn og veiðigjöldin og fleiri stór mál sem bíða. En að allt sé lagt undir þetta mál sýnir að menn eru á rangri braut, veruleikafirrtir, og það á ekki að láta bjóða sér svona vinnubrögð.