144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem forseti hefur sagt að það standi ekki til að breyta starfsáætlun Alþingis. Það þýðir að nokkrir dagar eru eftir af þingstörfum.

Ég vil nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. forseta út í nokkur þingmál, afar brýn, sem eiga eftir að koma inn og við þurfum að afgreiða. Samgönguáætlun, hvar er hún? Þingsályktunartillaga um skiptingu fjár í svokölluðum litla potti gagnvart fiskveiðistjórnarkerfinu? Heilbrigðisáætlun? Gjaldeyrishöftin? Og þannig mætti áfram telja. Miðað við að nokkrir dagar séu eftir, eins og forseti segir, hljóta þessi mál að verða að koma sem allra fyrst inn.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. forseta: Hvar eru þessi mál og hvernig eigum við að klára þau á þeim stutta tíma sem eftir er?