144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú að gera eins og hinir, ég ætla ekki að gera athugasemd við fundarstjórn forseta því að það hefur nú enginn gert í þessari umræðu. En mig langar samt að taka fram að sú umræða sem er númer tvö á dagskrá, um svokallaða rammaáætlun, var afgreidd út úr atvinnuveganefnd með nefndarálitum bæði meiri og minni hluta. Þegar mál hafa verið afgreidd úr nefndum með nefndarálitum meiri og minni hluta eru þau oftar en ekki sett á dagskrá og ekki bara þetta mál, mörg mál af sama meiði afgreidd eru úr nefndum með nefndaráliti meiri og minni hluta. Hvað það varðar er þetta mál ekki einkamál eins eða neins, hvorki hv. þm. Jóns Gunnarssonar né hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, sem er með minnihlutaálit úr atvinnuveganefnd.

Hér er talað eins og þeim (Forseti hringir.) sem hafa áhuga á virkjunum eða nýtingu eða vilja skoða það (Forseti hringir.) þyki ekki vænt um náttúru landsins. (Forseti hringir.) Ég frábið mér slíkar umræður.