144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni sem hér talaði síðast. Það skiptir auðvitað máli þegar við viljum eiga samstarf eins og ríkisstjórnin hefur boðað mjög ítrekað í sínu ágætisplaggi sem er stjórnarsáttmálinn. Það hefur lítið farið fyrir því hins vegar í verki, afskaplega lítið. Þess vegna hlýtur það að vera þannig, þegar mál er sett fram án samráðs við stjórnarandstöðuna, svona umdeilt eins og hér hefur verið rakið, að við nýtum okkur þennan vettvang til þess að láta í okkur heyra, að við viljum ræða önnur mál. Við viljum ræða samfélagsgerðina. Hvað getum við sem þjóðþing gert til þess að bæta samfélagsgerðina, til þess að við getum hugsanlega lent kjarasamningum í staðinn fyrir að ríkið segi bara nei við BHM-fólkið til dæmis? Það ætlar bara ekkert að semja.

Virðulegi forseti. Það hefur mikinn afleiddan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, fyrir utan að sjálfsögðu óþægindin sem (Forseti hringir.) sjúklingar og annað fólk verður fyrir sem fær ekki þá þjónustu sem það þarf.