144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:24]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni er nauðsynlegt að rifja aðeins upp hvaða áhrif þetta getur haft á kjaraviðræður og fletta upp í framkvæmdaáætlun eða verkefnaáætlun með stöðugleikasáttmála sem var undirritaður af ríkisstjórn, þessum minni hluta, 25. júní 2009. Þar er farið yfir þau verkefni sem eiga að koma til framkvæmda á árunum 2009–2014, samtals framkvæmdir upp á 740 milljarða. Þetta eru orkuver, 200 megavött, annað orkuver, 200 megavött, orkuver tengt Bakka, stóriðja upp á 206 milljarða. Það eiga að vera gagnaver á Norðurlandi og gagnaver á Suðvesturlandi. Það á að vera pappírsverksmiðja o.s.frv.

Stóð ríkisstjórnin á þeim tíma við þennan stöðugleikasáttmála? Nei, hún stóð ekki við hann. Og af hverju ekki? Vegna þess að það var ekki farið í orkufrekar framkvæmdir. (KaJúl: Þetta er bara rangt.) Það var grunnurinn að því að ekki var farið í orkufrekar framkvæmdir. (Gripið fram í.) Öll þau verkefni sem ég taldi hér upp og eru talin upp í samningi þeirrar ríkisstjórnar við ASÍ fjölluðu um að stærstum hluta að fara í orkutengdar framkvæmdir. (Forseti hringir.) Við erum að leysa þau mál hérna núna. Nú skulum við bara hefja vinnu við það að taka málefnalega umræðu um mikilvægi slíkra framkvæmda fyrir íslenskt samfélag.