144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Í síðustu viku mótmælti ég því margoft að þetta mál væri hér á dagskrá. Ég geri það enn og aftur og það til dæmis með vísan í minnisblað umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem telur að breytingartillagan standist ekki lög.

Af hverju stjórnarþingmenn eru svona óþreyjufullir yfir því að við viljum taka tíma í að ræða þetta endemismál fyrst það er komið hér á dagskrá skil ég ekki. Þau 30 mál sem hér var vísað í að biðu 2. umr. liðka ekki á neinn hátt fyrir gerð kjarasamninga nema fólk haldi að auglýsingar á lausasölulyfjum í sjónvarpi liðki fyrir gerð kjarasamninga eða yfirfærsla slysatrygginga í sérstakan lagabálk.

Hvar eru málin sem stjórnarliðar vilja koma hér á dagskrá? Ég ætlast til þess í þessum skrípaleik að stjórnarliðar segi okkur hvaða málum þeir eru að bíða eftir sem eru svona brýn.