144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

stjórnarfrumvörp væntanleg fyrir þinglok.

[14:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég skeyti ekki um útúrsnúninga hæstv. forsætisráðherra á stefnu Bjartrar framtíðar þegar kemur að orkumálum og auðlindamálum, það er stefna okkar að reyna að fá sem mest verð fyrir þá orku sem við þó framleiðum og við höfnum ekki öllum virkjunum. En ef við ætlum ekki að fá gott verð fyrir orkuna þá mundum við hafna öllum virkjunum. Já, það er okkar stefna.

Hins vegar svaraði hæstv. forsætisráðherra ekki spurningu minni. Það finnst mér tíðindi. Nógu mikið hefur verið sagt í fjölmiðlum að hér eigi að koma húsnæðismálafrumvörp, frumvörp um afnám gjaldeyrishafta. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra eins skýrt og verða má hvaða mál væru á leiðinni inn í þingið frá ríkisstjórninni núna undir þinglok og hann svaraði ekki. Eru húsnæðisfrumvörpin ekki á leiðinni? Er frumvarp um afnám hafta ekki á leiðinni? Hvað erum við þá að fara að ræða hér fram í júlí? Hvaða frumvörp (Forseti hringir.) eru að koma? Getur hæstv. forsætisráðherra sagt okkur það hér og nú?