144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

[14:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það virðist sem hæstv. forsætisráðherra hafi tekist að verða meistari í að skapa óraunhæfar væntingar og það er miður því að það er vont að gefa fólki falsvonir. Nú erum við búin að bíða töluvert lengi eftir að sjá útfærsluna á afnámi gjaldeyrishafta sem fengið hefur það viðkunnanlega heiti „stöðugleikaskattur“. Á meðan logar allt hér. Í dag samþykktu félagar í VR að fara í verkfall og það eina sem hæstv. forsætisráðherra virðist hafa upp á að bjóða er að rífa rammann inn í þessar kjaradeilur, sem er bara svo fráleitt að maður bara skilur ekki hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu. Það lýsir kannski pínulítilli aftengingu við það sem brennur á þjóðinni. Það hefur enginn kallað eftir þessu nema hv. þm. Jón Gunnarsson og kollegar hans.

Og bara svo því sé haldið til haga þá erum við öll á þessu þingi tilbúin að styðja það að Hvammsvirkjun verði að veruleika, þannig að það er ekki hægt að núa okkur því um nasir að við séum að stöðva alla framþróun í landinu.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hver eru forgangsmál hæstv. forsætisráðherra? Af þeim 40 málum sem liggja nú fyrir þinginu, hvaða mál er brýnast klára? Komdu með fimm.