144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

[14:57]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tekið saman neinn topp-5 lista, enda eru öll þau mál sem hér liggja fyrir mikilvæg og ekki ástæða til annars en ætla að hægt sé að klára þau öll, enda höfum við nægan tíma fyrir okkur. Við höfum sumarið fram undan svo að það gefst nægur tími til að klára þau mál sem liggja fyrir og þau sem eiga eftir að bætast við.

Það er hins vegar alrangt, sem hv. þingmaður fullyrti hér, að enginn sé að kalla eftir aukinni orku. Manni bregður nú bara í brún við að heyra þingmann tala með þessum hætti. Það virðist gefa til kynna að hv. þingmaður sé ekkert að fylgjast með stöðu atvinnumála, stöðu fjárfestingar, stöðu launþegahreyfingarinnar og áhyggjum hennar af því að ekki sé verið að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir til að tryggja þá orku sem þörf er á.