144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

frumvörp um húsnæðismál.

[15:05]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir spurninguna til viðbótar. Svo ég fái að halda aðeins áfram með svarið þá snýst það samtal sem á sér núna stað, m.a. um frumvarp um stofnframlög, ekki um mikilvægi þess, eins og hv. þingmaður talaði hér um, að byggja upp félagslega húsnæðiskerfið með stofnframlögum og auknum húsnæðisstuðningi, því um það erum við sammála. Það hefur líka komið fram frá hæstv. forsætisráðherra að það er samhugur í ríkisstjórninni hvað það varðar. Samtalið varðar nánari útfærslu og hvernig þær tillögur megi sem best styðja við kjarasamninga og efnahagslegan stöðugleika. Þegar við sitjum við borðið þá þurfa allir að vera tilbúnir til þess (Gripið fram í.) að gefa eitthvað eftir. Það er einfaldlega þannig að sjónarmið þeirra sem sitja við borðið hafa ekki verið fyllilega samhljóma. Það eru mismunandi áherslur hjá fulltrúum hinna ólíku verkalýðshreyfinga, (Forseti hringir.) milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og atvinnurekenda. Við erum að gera okkar (Forseti hringir.) til þess að ná niðurstöðu sem verður sem best fyrir (Forseti hringir.) heimilin í landinu. Það er áherslan, fyrir fólkið.