144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ástæða er til að efast um það, eftir að hafa hlustað á óundirbúnar fyrirspurnir, hver hefur dagskrárvaldið hér á þinginu. Það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni fyrir hæstv. forseta sem við höfum treyst á að hefði dagskrárvald, og raunar skammað ítrekað fyrir að fara með það á þann hátt að eingöngu væri verið að ræða rammaáætlun.

En eftir það sem fram kom hér ætla ég að biðja hæstv. forseta að hlutast til um að hæstv. forsætisráðherra sitji við umræðuna. Það er alveg augljóst að við eigum eftir að ræða mikið við hann um tilgang þessarar tillögu um rammaáætlun, að við fáum að vita hvort það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það sé innlegg í kjarabaráttu og eins líka túlkunina á því með hvaða hætti aukinn fjöldi virkjana innan mjög skamms tíma eigi að flýta fyrir kjarasamningum. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt.

Eins er augljóst að ástæða væri til að gera hlé á meðan við bíðum eftir frumvörpum því að það hefur líka komið fram hjá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að bíða eigi kjarasamninga með þau mál. Þau hljóta að verða að fara fyrir þingið þannig að við vitum ekkert hvenær við eigum von á þeim og engin ástæða til að bíða hér. Við getum þá frestað þingi þar til það liggur fyrir.