144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það veitir nú ekkert af því að halda þessari umræðu dálítið vel áfram. Ég óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra sé hér í salnum og líka umhverfisráðherra þegar við ræðum þessi mál, af þeirri augljósu ástæðu að hér fara menn með hluti sem eru einfaldlega ekki réttir og menn virðast heldur ekki þekkja nægilega vel til sögunnar.

Þá mundi ég líka vilja að hingað kæmi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson vegna þess að hann sagði líka ýmislegt á síðasta kjörtímabili í ræðustól Alþingis, eins og til dæmis það að hann teldi ekki að Urriðafossvirkjun ætti að fara í nýtingarflokk, það væri hans persónulega skoðun. Hvað hefur breyst? Það eru margar slíkar spurningar sem ég tel að við þurfum að eiga hér samtal um.

Ég tel jafnframt að það skipti máli að hv. þm. Jón Gunnarsson sitji hér við þessa umræðu. Það er nú lágmark þegar menn koma fram með svona tillögur að þeir láti að minnsta kosti sjá sig í umræðunum. Ég bið því um að áður en þessi umræða fer af stað hér verði þeir aðilar sem ég hef tiltekið kallaðir hingað í salinn.