144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:11]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Það kom klárlega fram hér í svari hæstv. forsætisráðherra áðan að það eru engin þingmál, sem eru tilbúin og eru einhverjar bráðaaðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar í stöðunni á vinnumarkaðnum, sem bíða sérstaklega eftir því að þessi umræða um rammaáætlun klárist. Bæði málin sem hæstv. ráðherra tiltók hérna, annars vegar losun hafta og hins vegar húsnæðismálin, eru enn þá í vinnslu, og enn þá í þróun þannig að það er náttúrlega bara uppspuni hjá hæstv. forsætisráðherra sem birtist okkur í kvöldfréttum í gær þar sem hann hélt því fram að hér væri verið að tefja mikilvæg mál frá ríkisstjórninni. Þau eru engin. Hann gat ekki nefnt nema bara þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar þegar hann var spurður að því áðan hvaða þingmál það væru sem koma ætti með og setja hér á dagskrá.

Hæstv. forsætisráðherra er farinn að minna mig æ meira á riddarann í Monty Python-myndinni sem missti hvern útliminn á fætur öðrum en hélt áfram að rífa kjaft.