144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er alveg augljóst að hér á ferð er einhver misskilningur, svo það orð sé nú notað, bæði hjá hæstv. forsætisráðherra og eins meiri hluta hv. atvinnuveganefndar sem flytur hér breytingartillögu við rammaáætlun. Menn fara rangt með söguna. Ég er næst á mælendaskrá þegar málið kemst á dagskrá og ég óska eftir því að í salnum verði hæstv. umhverfisráðherra, hæstv. forsætisráðherra og flutningsmenn breytingartillögunnar vegna þess að ég mun í minni ræðu fara yfir söguna, yfir ferilinn allan, og það er afar mikilvægt að þeir aðilar sem ég taldi hér upp verði viðstaddir og hlusti á ræðuna og komi þá í andsvör ef þeir vilja nánari útskýringar. Hér fara menn með rangt mál og það er alvarlegt í svo stóru máli sem rammaáætlunin er.