144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Svo það sé á hreinu tel ég þrjá mánuði miklu meira en nóg til að undirbúa mig fyrir næsta þing og þess vegna kvarta ég ekkert undan því að hér verði sumarþing, hvað þá að þingið verði framlengt. Það sem ég velti hins vegar fyrir mér er hvort virðulegur forseti sjálfur sé sáttur við það að í tvígang segir hann á forsetastóli að ekkert hafi verið ákveðið um sumarþing en svo kemur hæstv. forsætisráðherra og leiðréttir hann og ekki bara stingur upp á sumarþingi heldur lætur eins og það sé klappað og klárt, það sé búið að ákveða þetta.

Að forminu til á virðulegur forseti á að vera forseti Alþingis, allra þingmanna. Að forminu til er það þannig að þingið og ríkisstjórnin eiga að vera á einhvern hátt aðskilin. Ég velti fyrir mér hvort virðulegur forseti sé sjálfur sáttur við það að hæstv. forsætisráðherra komi í pontu á hinu háa Alþingi og yfirtaki verksvið virðulegs forseta. Er virðulegur forseti sáttur við þetta burt séð frá því hvað minni hlutanum finnst?

Að lokum legg ég til (Forseti hringir.) að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.