144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er skrýtin staða. Að afloknum fyrirspurnatíma til ráðherra eru eiginlega fleiri spurningum ósvarað en svarað því að hæstv. forsætisráðherra hefur tileinkað sér það að vera með útúrsnúninga, málfundastæla og aulabrandara í svörum við málefnalegum spurningum þingmanna. Það verður að segjast algjörlega umbúðalaust að það er gjörsamlega óþolandi að þingið og Ísland þurfi að búa við slíkan forsætisráðherra að hann geti ekki með nokkru móti neitað sér um útúrsnúninga, aulabrandara og málfundaæfingar. Það er bara sjálfstætt vandamál á Íslandi í dag að vera með slíkan forsætisráðherra. Svo kemur hann hér og leiðréttir forseta Alþingis sem er búinn að gera grein fyrir því að starfsáætlun þingsins standi — og hvað? Nei, það verður sumarþing, (Forseti hringir.) segir sá hinn sami. Þetta er óþolandi því að þingið setur niður nema við sjáum skýrt að þingið hafi sjálfstæði gagnvart slíku framkvæmdarvaldi.