144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Lykilatriðið er náttúrlega ramminn eins og hæstv. forsætisráðherra talar um. Lykilatriðið er að það skuli vera rammi utan um sátt og langtímastefnumótun þegar kemur að stórum málaflokkum eins og hvernig orkunni skuli háttað, hvað skuli virkjað og hvað skuli verndað. Þetta mál er á dagskrá en ég bið forseta að taka það af dagskrá, eins og allir þingmenn sem eru í salnum eru hlynntir, því að ef breytingartillagan við þessa þingsályktunartillögu verður samþykkt er búið að brjóta rammann, þá er búið að brjóta þá leið sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á síðasta kjörtímabili til að finna sátt um langtímastefnumótun. Ef sá rammi er brotinn höfum við hann ekki. Svo þurfum við að drífa okkur í að búa til ramma. Það eru faglegri og betri leiðir í norrænni fyrirmynd um það að finna sátt á vinnumarkaði.