144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

viðvera forsætisráðherra í umræðu um rammaáætlun.

[15:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að það liggi orðið alveg fyrir að það eru að verða þau skil að öllum er að verða ljóst að það er ekki nóg með að það sé engin verkstjórn í Stjórnarráðinu og engin forusta fyrir ríkisstjórn Íslands, heldur er staðan svo ólánleg að þrátt fyrir sterkan þingmeirihluta, 38 atkvæði hér í þingsal, eru heldur engin mál. Maður getur þrætt sig hérna eftir ráðherrabekknum og farið yfir vandræðamál hvers einasta ráðherra í þessari ríkisstjórn, og enginn vilji til þess að leiða þau mál til lykta, vegna þess að það er engin forusta.

Þessu sama forustuleysi, sem heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hæstv. forsætisráðherra, er líka fyrirmunað að eiga í samskiptum við stjórnarandstöðuna um það hvað eigi að vera á dagskrá, hvernig við eigum að ljúka hér þingi (Forseti hringir.) o.s.frv. Það er 19. maí í dag, starfsáætlun lýkur í næstu viku og ástandið er orðið mjög afhjúpandi.