144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

viðvera forsætisráðherra í umræðu um rammaáætlun.

[15:35]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni hvað þetta varðar. Hér hafa verið höfð mörg orð um að ekki megi gagnrýna hv. þingmann, herra Einar Kristin Guðfinnsson, hæstv. forseta. Hann tekur ekki mark á úrskurði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og í ljósi þess sem var lesið upp áðan er alveg ástæða til að halda að úrskurðurinn sé pólitískur fremur en málefnalegur og byggður á samkomulagi við þingið eða þar til bæra aðila sem koma algjörlega óhlutdrægir að þessu mati.

Hér hafa margir þingmenn úr stjórnarliðinu, eða of fáir kannski en einhverjir, farið hamförum yfir okkur undir liðnum fundarstjórn forseta. Hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur kom fram í andsvari á síðasta kjörtímabili að hún tæki undir sjónarmiðin sem komu fram í ræðu þess þingmanns sem hún var að tala við (Forseti hringir.) í því andsvari varðandi Urriðafossvirkjun, að sjálfsagt mál væri að hlífa henni að sinni á meðan frekari rannsóknir færu fram. Hvað hefur breyst? Hvaða rannsóknir hafa farið fram sem verða til þess að þingmaðurinn styður virkjunina nú?