144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

viðvera forsætisráðherra í umræðu um rammaáætlun.

[15:36]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir benti á nokkur atriði um ástandið á Alþingi sem ég er sammála. Þó er eitt sem ég get ekki tekið undir og það snýr að fundarstjórn forseta. Nú fara fram efnislegar umræður um það sem átti sér stað í fyrirspurnatímanum fyrr í dag og það er ekki eðlilegt. Slíka umræðu á að stöðva. Hér var sagt berum orðum: Það veitir ekki af því að halda þessari umræðu áfram.

Það var vísað beint í efnislega umræðu. Það eru fjölmörg góð mál sem við þurfum að koma í þingið, fjölmörg góð mál sem hafa verið tekin út úr nefndum en komast ekki í 2. umr. Er ekki eðlilegt ef stjórnarandstaðan ætlar sér (Forseti hringir.) að tala um fundarstjórn forseta að það verði eitthvað fundað fram á sumarið? [Háreysti í þingsal.]