144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

viðvera forsætisráðherra í umræðu um rammaáætlun.

[15:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka frekar til máls um fundarstjórn forseta en vegna þess að stjórnarþingmenn syngja hér sama sönginn um að hér fari fram efnisleg umræða verð ég að segja að það er alrangt. Einn maður er búinn að efna til efnislegrar umræðu undir liðnum fundarstjórn forseta í dag og það er hv. þm. Jón Gunnarsson. Aðrir hafa gert athugasemdir við ákvarðanir fundarstjóra, forseta þingsins, um það með hvaða hætti dagskrá skuli hagað og kallað eftir viðveru ráðherra í ljósi yfirlýsinga hæstv. forseta í hádegisfréttum í dag um að rammaafgreiðslan væri forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar. Það er enginn annar liður á dagskrá þingsins en umræður um fundarstjórn forseta til að koma skilaboðum sem þessum á framfæri. Ég þykist auðvitað sjá að hér sé hv. þm. Höskuldur Þórhallsson að snupra félaga sinn úr stjórnarliðinu, hv. þm. Jón Gunnarsson, sem er eins og ég segi eini maðurinn sem hefur efnt til efnislegrar umræðu undir liðnum fundarstjórn forseta í dag.