144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

viðvera forsætisráðherra í umræðu um rammaáætlun.

[15:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni til upplýsingar stöðvar forseti hvorki eitt né neitt undir þessum lið meðan þingmenn halda sig við málefnalega umfjöllun, vænti ég, enda njóta þingmenn málfrelsis hér í þessum sal til að ræða dagskrána og meta sjálfir hver fyrir sig hvort nægilega sé um það rætt með hvaða hætti dagskránni hefur verið skipað. Auðvitað gefur það fullt tilefni til að ræða um dagskrá þingsins þegar forsætisráðherra veður yfir forseta Alþingis og tilkynnir um breytingar á starfsáætlun sem forseti Alþingis hefur engar ákvarðanir tekið um og ekkert hefur verið rætt um í forsætisnefnd þingsins og gefur alveg sérstaka ástæðu til að ræða um fundarstjórn forseta undir þessum lið.