144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

viðvera forsætisráðherra í umræðu um rammaáætlun.

[15:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér finnst grafalvarlegt eins og kom fram undir dagskrárliðnum fyrirspurnir til ráðherra áðan að hæstv. forsætisráðherra telur sig hafa dagskrárvald á Alþingi. Engir fundir hafa verið boðaðir með þingflokksformönnum þar sem farið er yfir það hvort tilefni sé til að efna til sumarþings. Við fengum engin svör um það hvort húsnæðisfrumvörpin eiga að koma inn í þing, hvernig gangi með afnám gjaldeyrishafta, um hinn svokallaða stöðugleikaskatt sem hljómar ákaflega fallega en ekkert er vitað hvort stuðli að stöðugleika. Hér er allt í uppnámi í samfélaginu, ríkisstjórnin hefur ekki neina leið til að bregðast við því skelfilega ástandi sem hér er nema grípa fram fyrir dagskrárvald forseta. Mér finnst það mjög alvarlegt.

Við þurfum að finna tíma til að opna þingið fyrir þeim mikilvægu málum sem ríkisstjórnin boðar ef hún hefur einhver mikilvæg mál. Vandamálið er hins vegar að hún hefur engin mál.