144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður spyr hvort hér hafi verið um pólitísk hrossakaup að ræða. Svar mitt er: Nei.

Þegar við ráðherrarnir sem bárum ábyrgð á þessu máli fórum yfir umsagnirnar, sem reyndust vera 225, settum við til hliðar þær umsagnir þar sem var verið að ræða um mál sem verkefnisstjórnin hafði áður fjallað um. Þar komu fram nýjar spurningar og auðvitað veltum við fyrir okkur hvað ætti að gera við þær nýju upplýsingar. Var einhver möguleiki að leggja mat á þær? Og niðurstaðan varð sú að til þess að vera trú ferlinu, til að brjóta ekki gegn þeirri miklu vinnu sem farið hafði fram og hv. þingmaður þekkir ágætlega, færu stjórnmálamennirnir ekki að taka nýju upplýsingarnar og meta þær og flokka heldur yrði kostunum bara haldið í biðflokki sem er einmitt staðurinn fyrir virkjunarkosti þar sem þarf að svara spurningum. Til þess er biðflokkurinn. Um leið og búið er að svara öllum spurningum á að flokka kostina.

Auðvitað vildu mjög margir hafa áhrif á þetta ferli. Það er eðlilegt þegar miklir hagsmunir eru undir. En ég neita því alfarið að ráðherrarnir sem báru ábyrgð á málinu hafi verið með pólitísk hrossakaup, enda getum við fært góð rök fyrir niðurstöðunni sem var borin inn í þingið. Það er ekki við okkur að sakast þó að stjórnarmeirihlutinn (Gripið fram í.) þá hafi staðið hér í pontu og flutt eitt þúsund ræður.