144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður í ágætri ræðu sinni ræddi hin andlegu verðmæti sem við ættum í náttúru Íslands. Mér hefur stundum þótt að við sem störfum í stjórnmálunum látum dálítið troða okkur inn í mjög þröngan mælikvarða. Við ræðum gjarnan hlutina út frá krónum og aurum og þess vegna vakti það athygli mína þegar fræðimaður við sálfræðideild Háskóla Íslands fjallaði nýlega um það hvers virði hálendið væri Íslendingum sálfræðilega, þ.e. hvers virði það væri að eiga aðgang að ósnortinni náttúru fyrir sálarlíf fólks sem almennt býr í þéttbýli, í umhverfi sem hefur áhrif á líðan fólks. Hann bendir á að 80% Vesturlandabúa búa í þéttbýli sem sé umhverfi sem gangi á sálfræðilega getu og þess vegna skipti mjög miklu máli að varðveita einmitt þetta aðgengi að ósnortinni náttúru, þarna geti jafnvel falist andleg verðmæti fyrir okkur sem hér búum en auðvitað líka verðmæti fyrir þá sem sækja okkur heim. Mig langar að spyrja aðeins hv. þingmann út í þennan þátt málsins.