144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áhyggjur af því að við metum stundum hlutina allt of þröngt, að það þyki jafnvel einhver tilfinningasemi að ræða um breiðari sýn til að mynda á náttúruna, náttúran sé ekki bara til staðar til að geta virkjað og skapað einhvern X-prósenta hagvöxt til lengri tíma heldur skipti hún líka máli út af fullt af öðrum hlutum. Hún skiptir máli sjálfrar sín vegna þess að hún er búin að vera til mikið lengur en við og verður líklega til miklu lengur en við, ég vona það a.m.k., og hún skiptir máli líka eins og ég nefndi áðan fyrir andlega líðan.

Ég velti því hreinlega fyrir mér hvort þingmenn, í staðinn fyrir að taka hér í raun völdin af verkefnisstjórn rammaáætlunar, ættu ekki að velta því fyrir sér hvort ástæða væri til að meta fleiri þætti. Mér heyrast að vísu hv. þingmenn meiri hlutans ekki vera á þeim buxunum, það sé jafnvel komið fram of mikið af gögnum um þessa kosti eins og einhver orðaði það fyrir helgi. En eitt af því sem ég hefði viljað sjá ítarlegra mat á er til að mynda mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta og þangað ættum við frekar að stefna, því hér eru stórar ákvarðanir undir.