144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er náttúrlega alveg ljóst að það er búið að flytja tvær ágætar ræður um þetta mál. Það hefur svo sem ekki mikið komið af andsvörum frá hv. þingmönnum meiri hlutans, eitt ef ég hef tekið rétt eftir, þannig að þeir eru ekki aktífir í að komast að á mælendaskrá og taka til máls um þetta mál og ekki hafa borist nein sannfærandi rök fyrir því.

Við erum búin að vera að benda hér á formgalla málsins. Gott og vel, þá segja hv. þingmenn meiri hlutans að það sé búið að úrskurða í málinu, en það eru engin sannfærandi rök sem hafa verið færð fyrir því hvað liggi á, af hverju þinginu sé haldið í þessu máli á tímum þegar við gætum hugsanlega verið að ræða mikilvægari mál eins og þær kjaradeilur sem geysa í þjóðfélaginu. Engin rök hafa borist fyrir því að það liggi nokkurn skapaðan hlut á að þeyta þessum kostum yfir í nýtingarflokk. Vitað er að verkefnisstjórn á að ljúka störfum að ári. (Forseti hringir.) Af hverju bíðum við ekki bara? Ég hef ekki enn heyrt nein rök fyrir því.